Erlent

Selja ferðir inn á stríðssvæðin í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðaskrifstofan hefur til þessa sérhæft sig í heilsuferðum í nágrenni Moskvuborgar, en vill nú færa út kvíarnar.
Ferðaskrifstofan hefur til þessa sérhæft sig í heilsuferðum í nágrenni Moskvuborgar, en vill nú færa út kvíarnar. Vísir/AFP
Rússnesk ferðaskrifstofa hefur nú hafið sölu á ferðum með leiðsögumanni inn á stríðssvæðin í Dónetsk og Lúhansk í austurhluta Úkraínu.

Ferðaskrifstofan Megapolis Kurorts býður upp á fjögurra daga ferðir og er kostnaður milli 240 til 350 þúsund krónur.

Rússneska blaðið Izvestija greinir frá því að innifalið í verði sé akstur um svæðið í brynvörðum bíl með pláss fyrir fimm til sjö manns, leiðsögumaður af svæðinu og fylgd lífverða.

Einungis verður farið um svæði sem eru undir stjórn aðskilnaðarsinna. Í grein Izvestija segir að ferðirnar séu til „Novorossija“ (Nýja Rússlands), en það kalla Rússar svæðin í austurhluta Úkraínu sem eru nú undir stjórn aðskilnaðarsinna.

Ferðaskrifstofan hefur til þessa sérhæft sig í heilsuferðum í nágrenni Moskvuborgar, en vill nú færa út kvíarnar.

Áhuginn virðist enn sem komið er vera takmarkaður, en til þessa hafa tíu manns lýst yfir áhuga á að kaupa ferð sem þessa.

Stanislav Vinokurov, sjálfskipaður ferðamálaráðherra stjórnar aðskilnaðarsinna í Luhansk, segist ekki ánægður með uppátæki ferðaskrifstofunnar. „Hér erum við að fást við dauða, tár og sorg. Ég hefði ekki getað ímyndað mér eitthvað í þessa veru, sér í lagi ekki frá vinum okkar í Moskvu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×