Erlent

Fengu aðgang að milljónum SIM-korta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hollenska símafyrirtækið Gemalto framleiðir um það bil tvo milljarða SIM-korta á ári hverju.
Hollenska símafyrirtækið Gemalto framleiðir um það bil tvo milljarða SIM-korta á ári hverju. Vísir/EPA
Bandarískir og breskir leyniþjónustumenn komust yfir milljónir dulkóðunarlykla SIM-korta frá stærsta SIM-kortaframleiðanda heims, fyrirtækinu Gemalto sem er með höfuðstöðvar í Hollandi.

Þetta kemur fram í skjölum frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden, sem enn hefst við í Rússlandi. Vefmiðillinn The Intercept skýrir frá þessu.

Gemalto framleiðir SIM-kort fyrir flest stærstu farsímafyrirtæki heims. Bresku og bandarísku njósnararnir brutust inn í innra tölvukerfi fyrirtækisins og komust þannig í aðstöðu til þess að fylgjast með megninu af öllum símtölum og textaskilaboðum í farsímum heimsins án þess að fá til þess heimild frá stjórnvöldum eða biðja um upplýsingarnar beint frá fyrirtækjunum.

Með því að hafa dulkóðunarlyklana við höndina losnuðu njósnastofnanirnar einnig við að þurfa að leysa úr dulkóðuninni. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn notfærðu sér þetta á árunum 2010 og 2011, en ekki kemur fram í skjölunum frá Snowden hvort sambærilegar njósnir hafi verið stundaðar síðan. Í skjölunum frá Snowden kemur fram að símar íslenska símafyrirtækisins NOVA séu meðal þeirra sem njósnastofnanirnar höfðu aðgang að.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×