Erlent

Fulltrúadeildin samþykkir lög sem fresta komu flóttamanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Paul Ryan er forseti fulltrúadeildar þingsins.
Paul Ryan er forseti fulltrúadeildar þingsins. vísir/getty
Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í dag frumvarp sem frestar komu flóttamanna frá Sýrlandi og Írak til landsins. Til að flóttamennirnir geti fengið inngöngu í landið verða stjórnendur FBI, heimavarnarráðuneytisins og leyniþjónustunnar að gefa hverjum og einum þeirra grænt ljós. Þetta kemur fram hjá CNN.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafði gefið út í gær að myndi frumvarpið ná fram að ganga þá myndi hann grípa til neitunarvalds síns. 242 repúblíkanar greiddu frumvarpinu atkvæði sitt en auk þeirra greiddu 47 demókratar atkvæði með því. 137 greiddu atkvæði gegn því en það þýðir að meirihlutinn er of mikill til að forsetinn geti synjað frumvarpinu staðfestingar.

„Við erum í vondum málum ef látum ofsahræðslu stýra ákvörðunum okkar í kjölfar hryðjuverkaárása,“ sagði Obama við fjölmiðla á Filipseyjum í gær en þar er hann staddur í heimsókn. Hann bætti við að fólkið sem repúblíkanarnir væru að tefja væru að stærstum hluta munaðarleysingjar. „Ákvarðanir okkar munu aldrei verða góðar ef við látum stjórnast af móðursýki.“

Frumvarpið á ennþá eftir að fara í gegnum efri deild þingsins. Repúblíkanar eru með meirihluta í henni, 54 fulltrúa af 100, en demókratar hafa lýst því yfir að þeir muni reyna að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×