Handbolti

Einn af heimsmeisturum Þóris: Lukkusteinn stráksins hennar gerði sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heidi Löke.
Heidi Löke. Vísir/AFP
Línumaðurinn Heidi Löke átti frábært heimsmeistaramót með norska kvennalandsliðinu í handbolta og vann nú sitt sjötta gull undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Heidi Löke er 33 ára gömul og hefur spilað með norska landsliðinu frá 2006. Hún skoraði sex mörk í úrslitaleiknum og var valin sem besti línumaður heimsmótsins.

Heidi Löke tók ekki sjálf við gullpeningnum heldur var það átta ára sonur hennar Alexander sem fékk verðlaunapeninginn um hálsinn.

„Það var mjög gaman að hann fékk að taka við gullinu. Hann hefur verið með mér á öllum stórmótunum fyrir utan HM í Brasilíu og það skiptir öllu máli fyrir mig að hafa hann með mér. Ég er mjög ánægð með að hann sé með mér," sagði Heidi Löke við Dagbladet.

Löke skoraði alls 35 mörk út 45 skotum á mótinu og varð 22. markahæsti leikmaður mótsins. Hún skoraði mörkin sín bæði með vinstri og hægri hendi eftir því sem passaði.

„Strákurinn minn lét mig fá lukkustein fyrir heimsmeistaramótið. Hann sagði við mig að ef ég færi með þennan stein á mótið þá myndum við vinna gullið. Auðvitað var ég með hann í vasanum allan tímann," sagði Löke og sýndi blaðamanninum steininn.

Heidi Löke varð nú heimsmeistari í annað skiptið en hún hefur einnig unnið Ólympíugull með norska landsliðnu og er auk þess þrefaldur Evrópumeistari.  Allir titlar hennar komu eftir að hún eignaðist Alexander árið 2007.

Löke spilar með ungverska liðinu Györi Audi ETO KC og hefur gert það frá árinu 2011. Áður spilaði hún með norska stórliðinu Larvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×