Erlent

Myrti fimm vikna barnabarn sitt

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Jones og Amelía.
Mark Jones og Amelía.
Mark Jones var á dögunum dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að myrða fimm vikna gamla dótturdóttur sína. Saksóknarar sögðu hann hafa framið ódæðið þar sem honum væri illa við föður barnsins, kærasta dóttur sinnar.

Jones hafði sannfært dóttur sína um að hann væri veikur ári áður svo hann fengi að taka þátt í lífi hennar. Hann hafði þóst falla í yfirlið fyrir framan hana og hringt í hana og þóst vera læknir. Árið 2012 fór dóttir hans í bíó og bauðst hann til þess að passa Amelíu barnabarn sitt.

Samkvæmt frétt á vef Sky lést Amelía tveimur sólarhringum síðar. Sérfræðingar sögðu að henni hefði verið veitt þung höfuðhögg og að hún hefði verið hrist. Rannsókn leiddi í ljós að þegar Amelía hætti að anda hringdi Jones í dóttur sína, áður en hann hringdi í neyðarlínuna.

Sjálfur hélt hann því fram að hún hefði fengið þessa áverka eftir að hann missti stúlkuna í gólfið.

Dóttir Jones var sjálf handtekin vegna málsins og hin börn hennar tekin af henni í eitt og hálft ár samkvæmt BBC. Hún segir þetta hafa eyðilagt líf sitt og fjölskyldu sinnar. Hún sagði að eitt barna hennar hafi spurt hana: „Ef afi sleppur úr fangelsi þurfum við þá að flytja? Ég er hræddur um hann muni myrða mig næst.“

Dómarinn sagði að Jones sýndi enga iðrun fyrir ódæðið og að ef honum yrði nokkurn tíman sleppt úr fangelsi yrði hann mjög gamall maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×