Erlent

Indland: Fjórtán ára stúlku hent úr strætisvagni og lést

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin svipar til árásar í landinu í desember 2012 og vakti gríðarlega athygli.
Árásin svipar til árásar í landinu í desember 2012 og vakti gríðarlega athygli. Vísir/AFP
Fjórtán ára indversk stúlka lést og móðir hennar slasaðist alvarlega eftir að þeim var hent út úr strætisvagni í kjölfar þess að starfsfólk vagnsins réðst á þær.

Í frétt BBC kemur fram að þrír hafi verið handteknir, þar á meðal vagnstjórinn og aðstoðarmaður hans. Árásin var gerð á miðvikudagskvöld.

Stúlkan var stödd í vagninum í Moga-héraði ásamt móður sinni og bróður. Fáir farþegar voru um borð í vagninum þegar árásin var gerð.

Árásin svipar til árásar í landinu í desember 2012 þar sem ungri konu var nauðgað af hópi manna í strætisvagni í Delí. Málið vakti gríðarlega athygli í Indlandi og víðar og vakti mikla umræðu um stöðu kvenna í indversku samfélagi.

Móðir stúlkunnar segir í samtali við indverska fjölmiðla að mennirnir hafi ítrekað áreitt þær. „Enginn kom til hjálpar. Fyrst ýttu þeir dóttur minni úr vagninum, svo mér.“

Lögregla á Indlandi rannsakar málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×