Erlent

Segir Rússland ekki vilja stríð við neinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin á ráðstefnunni í dag.
Vladimir Putin á ráðstefnunni í dag. Vísir/EPA
Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir landið ekki vera í stríði og að Rússar vilji ekki stríð við neinn. Hann gagnrýndi viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna harðlega í dag á ráðstefnu í Rússlandi.

„Það er ekkert stríð, guði sé lof. En það er greinilega verið að koma í veg fyrir þróun okkar,“ hefur AFP fréttaveitan eftir forsetanum.

Hann sagði viðskiptaþvinganir sem beitt hefur verið gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar ekki hafa áhrif á Rússland. Þrátt fyrir það hafi þær ollið skaða. Putin sagði að Rússland yrði að auka fullveldi þjóðarinnar og efnahagsins.

Þar að auki kvartaði hann yfir tilraunum vesturveldanna til að vilja halda uppi því valdajafnvægi sem hafi myndast við fall Sovétríkjanna. Þar sem einn heimsleiðtogi vildi vera þar áfram og var hann væntanlega að tala um Bandaríkin.

„Slíkur heimur mun aldrei henta Rússlandi,“ sagði Putin. „En við viljum ekki há stríð við neinn. Við ætlum að starfa með öllum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×