Erlent

Lognið á undan storminum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bandaríkjaforseti að störfum á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Hann lofar því að undirrita ekki allt, sem þingið sendir til hans þau tæpu tvö ár sem eftir eru af forsetatíð hans.
Bandaríkjaforseti að störfum á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Hann lofar því að undirrita ekki allt, sem þingið sendir til hans þau tæpu tvö ár sem eftir eru af forsetatíð hans. Vísir/AFP
Eftir að demókratar misstu meirihluta sinn í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings, nú í nóvember síðastliðnum, hefur Barack Obama æ oftar gripið til þess að hóta að beita neitunarvaldi sínu þetta hálfa kjörtímabil sem eftir er af valdatíð hans.

Repúblikanar hafa margir hverjir verið afar ósáttir við nokkur stærstu málin sem demókrötum hefur tekist að afgreiða á forsetatíð Obama, og vilja nú ólmir nota hina sterku stöðu sina til þess að kollvarpa þeim sumum eða gjörbreyta.

Þar á meðal eru heilbrigðistryggingalögin, sem hafa nú verið í gildi í nærri fimm ár og gjörbreytt lífi milljóna Bandaríkjamanna sem áður áttu engan kost á því að fá heilbrigðisþjónustu nema steypa sér í stórskuldir.

Nú í vikunni kynntu nokkrir þingmenn repúblikana enn eina tilraunina til þess að ógilda þessi lög, en það hafa þeir reynt að gera á hverju ári án nokkurs árangurs.

Neitunarvaldi hótað

Í stefnuræðu sinni nú í janúar sagðist Obama ekki ætla að hika við að beita neitunarvaldi á allar tilraunir repúblikana til þess að kollvarpa þessum heilbrigðislögum.

Hann taldi jafnframt upp fleiri mál sem örugglega myndu verða til þess að hann beitti neitunarvaldi sínu, ætluðu repúblikanar að nota þingstyrk sinn til þess að fá þau samþykkt.

Obama hefur til þessa aðeins tvisvar beitt neitunarvaldi sínu, fyrst í desember árið 2009 og svo í október 2010. Hvorugt þessara frumvarpa, sem forsetinn neitaði að skrifa undir, teljast stór mál eða sérlega mikilvæg. En athygli vekur að í bæði skiptin gerðist þetta á fyrstu árum hans í embættinu, á meðan demókratar höfðu enn traustan meirihluta í báðum þingdeildum.

Loforð og væntingar

Þegar Obama var fyrst kosinn forseti voru miklar vonir bundnar við hann, enda hafði hann í kosningabaráttunni gefið stór loforð sem honum hefur þó síðar reynst erfitt að standa við.

Hann lofaði því meðal annars að Bandaríkjamenn hættu pyntingum, og vissulega hefur honum orðið að einhverju leyti ágengt í því efni. Hann lofaði því einnig að bandaríski herinn hætti hernaðarþátttöku í Írak og Afganistan. Í báðum löndunum geisar enn stríð og Bandaríkin eru engan veginn laus undan allri aðild þar, þótt formlega hafi þátttöku hersins í bardögum lokið.

Enn fremur lofaði hann að loka Guantanamo-fangabúðunum, sem ekki hefur tekist þótt meira en 600 fangar hafi vissulega verið látnir lausir og sendir til annarra landa. Enn sitja samt rúmlega 120 fangar í Guantanamo, þar á meðal líklega nokkrir tugir sem ólíklegt er að Bandaríkin vilji nokkurn tímann sleppa hendinni af.

Styttist í kosningabaráttu

Obama á nú aðeins tvö ár eftir í embættinu og þau mótast óhjákvæmilega af því að í nóvember 2016 verður kosinn nýr forseti í hans stað. Hvort demókrati eða repúblikani hlýtur náð fyrir augum kjósenda ræðst að hluta til af því hvernig flokkarnir tveir standa sig á þingi næstu misserin, en einnig af því hvernig Obama sjálfur stendur sig í glímu við fjandsamlegt þing.

Með því að beita neitunarvaldinu af miklu kappi tekur Obama vissulega þá áhættu að ímynd hans umhverfist í ímynd hins þvermóðskufulla forseta, sem alltaf segir nei við öllu sem þingið reynir að gera. Á móti geta repúblikanar á þingi skaðast á því að keyra í gegnum þingið hvert frumvarpið á fætur öðru, sem vitað er fyrirfram að Obama geti aldrei skrifað undir.

Þetta er reyndar bara ímyndarvandi, en gæti sem slíkur einmitt haft úrslitaáhrif þegar kemur að kosningum til þings og forseta haustið 2016.

Refsiaðgerðir gegn Íran er eitt af átakamálunum.
Nokkur helstu átakamálin

Hertar reglur á Wall Street


Sumarið 2010 setti Bandaríkjastjórn fjármálaveldinu í Wall Street strangari reglur, sem eiga að tryggja aukið gegnsæi og betra eftirlit í þeim tilgangi að minnka líkur á nýrri efnahagskreppu. Í stefnuræðu sinni sagðist Obama ætla að beita neitunarvaldi sínu ef þingið ákveður að útþynna á ný þessar hertu reglur. Fljótlega eftir að nýtt þing kom saman í janúar tóku repúblikanar til við að undirbúa einmitt það, enda líta þeir svo á að þessar hörðu reglur séu alltof harkaleg viðbrögð við efnahagskreppunni miklu sem skall á árið 2008. Reglurnar séu alltof íþyngjandi. Obama og demókratarnir vilja hins vegar herða þær enn frekar. Allt stefnir því í hörð átök á þinginu um breytingar á þessum reglum.



Heilbrigðis­tryggingar

Eitt helsta afrek demókrata á forsetatíð Obama er almennt talið vera lögin um heilbrigðistryggingar, The Affordable Care Act, sem samþykkt voru í mars árið 2010. Þar með lauk að mestu áratuga langri baráttu demókrata fyrir því að tryggja flestöllum Bandaríkjamönnum öruggar heilbrigðistryggingar á viðráðanlegu verði. Repúblikanar hafa frá upphafi litið á þetta sem ólög hin verstu, þar sem þau leggja kvaðir bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Í vikunni samþykkti fulltrúadeild þingsins svo að ógilda þessi lög. Í stefnuræðunni sagðist Obama ekki ætla að láta þingið komast upp með að grafa undan öryggi bandarískra fjölskyldna með því að taka frá þeim heilbrigðistryggingarnar.

Refsiaðgerðir gegn Íran

Í stefnuræðu sinni hét Obama því að beita neitunarvaldi sínu samþykkti þingið nýjar refsiaðgerðir gegn Íran. Samningaviðræður standa nú yfir vegna kjarnorkuáætlunar Írans og á niðurstaða að liggja fyrir innan fárra mánaða. Auk Írana og Bandaríkjamanna eiga Bretar, Frakkar, Kínverjar, Rússar og Þjóðverjar fulltrúa í viðræðunum. Obama lítur svo á að nota verði tækifærið meðan Íranar eru reiðubúnir til samningaviðræðna, jafnvel þótt engin trygging sé fyrir því að þær beri árangur. Nýjar refsiaðgerðir muni hins vegar tryggja að árangurinn verði örugglega enginn. Repúblikanar hafa hins vegar sagt ástæðulaust að bíða lengur, ekkert bendi til þess að Írönum sé nein alvara með viðræðunum.



Keystone-olíuleiðslurnar

Í næstu viku er reiknað með því að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykki frumvarp um stækkun Keystone-olíuleiðslukerfisins, sem liggur frá olíusöndum í austanverðu Kanada suður til Houston í Texas. Öldungadeildin boðar afgreiðslu frumvarpsins fljótlega, en samþykkt þess hefði í för með sér að stjórnvöldum yrði gert skylt að ráðast í framkvæmdirnar. Málið hefur lengi verið umdeilt vegna umhverfisspjalla sem vinnsla olíu úr söndunum hefur í för með sér. Obama hefur hótað að beita neitunarvaldi í þessu máli, meðal annars á þeim forsendum að kanna þurfi umhverfis­áhrifin betur auk þess sem gera þurfi mótráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×