Erlent

Hermenn nauðguðu 221 konu í Darfur

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þorpinu Tabit.
Frá þorpinu Tabit. Vísir/AFP
Súdanskir hermenn fóru hús úr húsi í þorpi í Darfur héraði og nauðguðu minnst 221 konu og stúlku í fyrra. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch sögðu frá þessu í dag, en forstjóri Afríkudeildar samtakanna segir þetta nýjan lágpunkt í Darfur, þar sem fjölmörg ódæði hafa verið framin á síðustu árum.

Tilkynningar um fjöldanauðganir í þorpinu Tabit heyrðust fyrst í október í fyrra. Sameinuðu þjóðirnar og Afríkubandalagið sögðust þó ekki finna sannanir. Súdanski hermenn fylgdist mjög náið með rannsókninni og höfðu áhrif á niðurstöður hennar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fór þá fram að yfirvöld í Súdan leyfðu rannsókn að eiga sér stað. Þess í stað skipaði Omar al-Bashir, forseti Súdan, að skrifstofu HRW í landinu yrði lokað og hann hefur ekki hleypt aðilum frá Sameinuðu þjóðunum né Afríkubandalaginu að þorpinu síðan.

Stjórnvöld í Súdan segja að þeirra eigin rannsókn hafi ekki fundið dæmi um eina nauðgun í þorpinu.

Skýrsla HRW byggir á rúmlega 130 símtölum við þorpsbúa, vitni og liðhlaupa úr hernum. Þar kemur fram að allt að tíu ára stúlkum hafi verið nauðgað af hermönnum. Þá hafi sumum konum verið nauðgað margsinnis og jafnvel fyrir framan fjölskyldur þeirra.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar staðfestu rannsakendur að 27 nauðganir hafi átt sér stað og fengu trúverðugar heimildir fyrir 194 nauðgunum. Skýrslan stimplar þá sem tóku þátt í árásunum og vissu af þeim sem stríðsglæpamenn.

Frá 2003 hafa rúmlega þrjú hundruð þúsund manns látið lífið í átökum stjórnvalda og uppreisnarmanna í Darfur héraði. Þá hafa meira en fjögur hundruð þúsund manns þurft að flýja heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×