Erlent

Vilja refsa foreldrum fyrir að eiga of þung börn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Um 28 prósent barna í Púertó Ríkó eru of þung.
Um 28 prósent barna í Púertó Ríkó eru of þung. vísir/getty
Lagt hefur verið fram frumvarp í Púertó Ríkó sem miðar að bættri heilsu barna í landinu. Verði frumvarpið að lögum verður refsivert fyrir foreldra að eiga of þung börn. Um 28 prósent barna í landinu eru of þung.

Einn flutningsmanna frumvarpsins, Gilberto Rodriguez, segir í samtali við fréttastofu AP að mikilvægt sé að auka þekkingu foreldra á heilbrigðum lífsstíl. Foreldrar of þungra barna muni því fá fræðslu og ráðleggingar á heilbrigðu líferni og fái sex mánuði til að bæta lífsstíl barna sinna. Sé vandamálið enn til staðar að þeim tíma liðnum verði málinu vísað til barnaverndar.

„Ef fulltrúar ákveða svo að ástand barnsins hafi enn ekki batnað sex mánuðum síðar geta foreldrarnir fengið sekt upp á 500 Bandaríkjadollara [66 þúsund krónur],“ sagði Gilbert.

„Og sex mánuðum eftir það, ef vandamálið er enn viðvarandi, geta foreldrarnir verið sektaðir um 800 dollara [102 þúsund krónur] til viðbótar,“ bætti hann við.

Frumvarpið er afar umdeilt og segja fjölmargir það rangt og yfirborðskennt. Barnalæknar hafa jafnframt gagnrýnt það en læknirinn Ricardo Fontanet segir að verði frumvarpið að lögum verði hlutirnir afar flóknir. Börn, sem og fullorðnir, glími við ofþyngd af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna sjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×