Philadelphia Eagles mun í dag semja við leikstjórnandann Tim Tebow sem hefur verið án félags í tæp tvö ár.
Tebow er þrátt fyrir skamman feril í NFL-deildinni einn þekktasti íþróttamaður Bandaríkjanna en flestir voru búnir að afskrifa þann möguleika að hann fengi nokkru sinni tækifæri á ný.
Fréttir þess efnis að hann hefði æft með Philadelphia einn dag fyrr í mánuðinum komu mjög á óvart en í gær greindu bandarískir fjölmiðlar svo frá því að hann fengi samning við félagið í dag og yrði með þegar undirbúningstímabil liðsins hefst í dag.
Engu að síður þykir enn ólíklegt að hann fái að spila nokkuð með liðinu á næstu leiktíð, sem hefst í byrjun september. Eagles fékk Sam Bradford frá St. Louis Rams fyrr í vetur en auk hans eru Mark Sanchez og Matt Barkley einnig á mála hjá liðinu.
Tebow er 27 ára og spilaði síðast árið 2012, er hann var hjá New York Jets. Þar áður var hann í tvö ár hjá Denver Broncos þar sem hann komst í úrslitakeppnina. Hann var síðast á mála hjá New England Patriots en komst ekki í lokahópinn fyrir tímabilið 2013.
Hann sagði þá að hann myndi gera allt sem hann gæti til að halda draumi sínum á lífi um að spila sem leikstjórnandi í NFL-deildinni og hann virðist kominn skrefi nær því í dag.
Keflavík
Grindavík