Innlent

Ráðist á málfrelsið í sinni jákvæðustu mynd

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Baldursson efast um að til sé það land sem flaggi skopmyndum jafn mikið og Frakkland.
Halldór Baldursson efast um að til sé það land sem flaggi skopmyndum jafn mikið og Frakkland. Vísir/GVA
„Ég er í hálfgerði sjokki Ég er enn að melta þetta. Að einhver skuli ráðast með svona svívirðilegum hætti á sjálft málfrelsið í sinni jákvæðustu mynd, skopmyndateikningar... Ég er enn að melta þetta,“ segir Halldór Baldursson, skopmyndateiknari Fréttablaðsins, í samtali við Vísi.

„Að einhverjum skuli detta þetta í hug – og ekki í fyrsta sinn þar sem þetta kemur í beinu framhaldi af atburðunum tengdum Jyllands-Posten árið 2005 – og þetta skuli hafa sprungið út í þessu voðaverki. Ég er enn að melta það, hvernig það geti gerst,“ segir Halldór.

Halldór segist ekki hafa þekkt persónulega til þessara teiknara sem létust í árásinni. „En þetta eru einhverjir þekktustu teiknararnir í Frakklandi og þarna ríkir mikil hefð fyrir skopmyndatekningum. Ég efast um að til sé land sem flaggi skopmyndum jafn mikið og Frakkland, þar sem hefðin er jafn rík og hvar meiri virðing sé borin fyrir þessum tjáningarmiðli. Það er þá kannski ekki tilviljun að svona tilræði komi einmitt þarna fram. Ég skal ekki segja.“

Halldór segist draga þá ályktun að árásin tengist á einhvern hátt trúarbrögðum og að það sé alveg skýrt í hans huga að trúarbrögð falli undir málaflokk sem má gagnrýna. „Þetta eru samfélagslegar stofnanir og nátengdar pólitík og lífi fólks. Auðvitað eiga skopmyndir að fjalla um trúarbrögð og gagnrýna. Það var eiginlega sorglegt í eftirmála Jyllands Posten-málsins að fólk skyldi ekki standa einhuga á bakvið teiknarana sem þar voru. Við sjáum nú hvað er mikilvægt að standa vörð um tjáningarfrelsið og fá að skopast með hvaða opinbert og samfélagslegt mál sem er.“

Ertu sjálfur byrjaður að huga að þeirri mynd sem mun birtast í Fréttablaðinu á morgun?

„Já, ég er komin með myndina í kollinn. Við skulum bara bíða og sjá til. Kannski skipti ég um skoðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×