Erlent

Refsa þeim sem leyfðu vélinni að taka á loft

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitarmenn halda á sætum úr vélinni sem brotlenti í Java haf.
Leitarmenn halda á sætum úr vélinni sem brotlenti í Java haf. Vísir/AP
Samgönguráðuneyti Indónesíu tilkynnti í dag harðar refsingar gegn þeim sem leyfðu vélinni sem brotlenti í Java hafi að taka á loft, án tiltekinna leyfa. Yfirmanni flugvallarins, sem og yfirmanni flugumferðarstjórnar hefur verið vikið úr starfi.

Þá verða leyfi og áætlanir allra flugfélaga í Indónesíu könnuð og gengið verður úr skugga um að ekki sé verið að brjóta lög. Þetta kemur fram á vef AP fréttaveitunnar.

Leitarmenn á Java hafi berjast nú við slæmt veður við leitina að flugvélinni sem brotlenti þann 28. desember á leiðinni frá Surabaya til Singapúr. Búið er að finna lík 37 farþega, en alls voru 162 um borð í vélinni og talið er að flestir þeirra séu enn í vélinni.

Embættismenn í Indónesíu hafa sagt að flugfélagið hafi ekki haft leyfi til að fljúga til Singapúr á þessum degi og meðan rannsókn stendur yfir má flugfélagið ekki fljúga þessa leið.

Samgönguráðuneytið hefur einnig skipað öllum flugfélögum að útvega flugmönnum veðurskýrslur fyrir flugtak, en fyrir var það verk flugmanns og aðstoðarflugmanns að kanna veðrið. Í flestum öðrum löndum sér flugfélagið um það að kanna veðrið fyrir flugmennina.

Á vef Independent kemur fram að líklega hafi stél vélarinnar fundist en flugriti vélarinnar er að öllum líkindum í þeim hluta vélarinnar.

Fimm stórir hlutir hafa fundist á sónar sem talið er að sé brak úr vélinni, en kafarar hafa ekki komist þar niður vegna veðurs, strauma og skyggnis.


Tengdar fréttir

Hafa fundið fleiri lík í Jövuhafi

Talsmenn indónesískra yfirvalda segja að leitarmenn hafi nú veitt alls þrjátíu lík af farþegum vélar AirAsia sem hrapaði í Jövuhafi á sunnudag úr sjónum.

Ekki er talið að vélin liggi á miklu dýpi

Stjórnvöld í Indónesíu hafa staðfest að brak sem fannst á reki á Javahafi í dag sé úr farþegavél Air Asia sem hvarf af ratsjám um síðustu helgi. Hundrað sextíu og tveir voru um borð í vélinni þegar hún fórst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×