Erlent

Hefja leit neðansjávar í dag

Brak úr vélinni fundið Dwi Putranto, yfirmaður í indónesíska flughernum, sýnir ferðatösku og annað sem fannst á floti í Jövuhafi. Fréttablaðið/AP
Brak úr vélinni fundið Dwi Putranto, yfirmaður í indónesíska flughernum, sýnir ferðatösku og annað sem fannst á floti í Jövuhafi. Fréttablaðið/AP
Leit neðansjávar að flaki farþegaþotu AirAsia sem fórst í Jövuhafi á sunnudag hefst í dag.  Sérhæfður leitarflokkur frá Frakklandi er kominn á staðinn með tæki og tól sem notuð eru til þess að finna svörtu kassa flugvélarinnar sem gefa upplýsingar um hvað varð þess valdandi að vélin fórst.

Vélin var á leið frá Surabaya í Indónesíu til Singpore þegar hún hvarf af ratsjám í slæmu veðri. Þegar er búið að finna nokkur lík á floti í sjónum en 162 voru um borð í vélinni þegar hún fórst. Í morgun fundust nokkur lík til viðbótar og hafa þá sextán fundist í allt. Enginn hefur fundist á lífi.

Talið er líklegt að skrokkurinn sé á botni Jövuhafs en þar er dýptin ekki mikil og því ríkir bjartsýni á meðal leitarmanna að hægt verði að finna vélina. Slæmt veðurá leitarsvæðinu hefur þó hamlað leitarstörfum síðustu daga. Þegar er búið að bera kennsl á eitt líkanna, var það farþegi frá Indónesíu og var jarðarför hennar haldin í Surabaya í gær.

Svo virðist sem flugstjórinn hafi verið að reyna að forðast að lenda í slæmu veðri og hafði hann beðið um heimild til að hækka flugið rétt áður en vélin fórst. Sérfræðingar telja líklegt að hann hafi reynt að hækka sig á allt of skömmum tíma og þannig hafi hún ofrisið og við það hrapað í sjóinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×