Erlent

Handtekinn fyrir að taka upp aftöku á myndband

Atli Ísleifsson skrifar
Aftakan átti sér stað úti á götu í Mekka.
Aftakan átti sér stað úti á götu í Mekka. Mynd/Skjáskot
Lögregla í Sádi-Arabíu hefur handtekið mann sem tók upp myndband af aftöku í borginni Mekka fyrr í mánuðinum. Konan var höggvin á háls úti á götu þann 12. janúar síðastliðinn, en hún hafði verið dæmd fyrir að hafa drepið sjö ára dóttur eiginmanns síns. Hún neitaði sök.

Sádi-arabískir aðgerðasinnar hafa dreift myndbandinu af aftökunni á samfélagsmiðlum. Þar má sjá hvernig þrír einkenniskæddir menn og böðull í hvítum búningi reyna að koma konunni í rétta stöðu og höggva svo höfuðið af henni í þremur höggum. Aftakan á sér stað á götu úti. Áður en konan er tekin af lífi heyrist í henna kalla „ég drap ekki, ég drap ekki“

Sádi-arabískir fjölmiðlar hafa nú greint frá því að maðurinn sem tók aftökuna upp á myndband hafi verið handtekinn og bíður nú kæru.

Í frétt New York Times segir að þó sé ekki ljóst hvaða lög hann á að hafa brotið, en talsmaður innanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu segir atvikið hafa brotið í bága við lög landsins um upplýsingatækni.

Að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch voru 87 manns teknir af lífi í Sádi-Arabíu á síðasta ári. Ellefu hafa nú þegar verið teknir af lífi það sem af er ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×