Erlent

Hóf skotárás í verslunarmiðstöð og svipti sig lífi

Bjarki Ármannsson skrifar
Alríkislögreglan á vettvangi í dag.
Alríkislögreglan á vettvangi í dag. Vísir/AP
Maður vopnaður nokkrum skammbyssum hóf skothríð í verslunarmiðstöð í Flórída í Bandaríkjunum í dag. Að sögn lögreglu særði hann konu sína og drap annan mann áður en svipti sig lífi.

Lögregla fékk tilkynningu um skotárásina um það leyti sem búðir voru að opna, að því er fréttaveitan Reuters greinir frá. Skothvellir heyrðust enn úr verslunarmiðstöðinni þegar fyrstu lögregluþjónarnir mættu á vettvang.

Inni í verslunarmiðstöðunni fundu þeir skotmanninn, Jose Garcia-Rodriguez, konu hans og ónafngreindan mann sem lést í skotárásinni. Garcia-Rodriguez lést sjálfur úr skotsári sem hann veitti sjálfum sér en kona hans, sem virðist hafa verið skotmarkið, særðist aðeins lítillega og er komin á sjúkrahús. Um hundrað manns voru í verslunarmiðstöðinni á meðan skotárásinni stóð og var þeim vísað út af lögreglu og verslunum lokað.

Málið er til rannsóknar og telur lögregla að ágreiningur milli hjónanna hafi leitt til þess að Garcia-Rodriguez hóf að skjóta. Ekki er vitað að svo stöddu hver tengsl þeirra við þriðja manninn eru. Á vettvangi fundust þrjár skammbyssur, sem og mikið magn skotfæra sem maðurinn hafði í fórum sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×