Erlent

Handjárnuð kona stal lögreglubíl - Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Lögreglan í Pensylvania í Bandaríkjunum handtók hina 27 ára gömlu Roxanne Rimer fyrir búðahnupl á dögunum. Hún var handjárnuð og sett í aftursæti lögreglubíls, á meðan lögregluþjónar skoðuðu bíl hennar. Á ótrúverðan hátt tókst konunni að komast í framsætið og keyra lögreglubílnum af stað, með hendurnar í járnum fyrir aftan bak.

Hún keyrði um 16 kílómetra vegalengd á allt að 160 kílómetra hraða samkvæmt lögreglunni. Lögreglan hefur birt myndband úr mælaborðsvél lögreglubílsins þar sem aksturslag konunnar sést greinilega.

Fyrst var hún handtekin eftir að hún hrinti öryggisverði í verslun þar sem hún var gómuð fyrir hnupl. Þá hljóp hún út í bíl, sem afi hennar ók. Hann neitaði þó að keyra af stað en hún steig sjálf á bensíngjöfina svo að bíllinn lenti utanvegar.

Eftir að lögreglumennirnir höfðu handjárnað hana og sett hana í aftursætið, tókst henni að skríða í framsætið og keyra af stað.

„Hvernig keyrir þú bíl með hendurnar fastar fyrir aftan bak?“ sagði lögreglustjórinn Barry Kramer í samtali við CBS News. „Flestir gætu það ekki.“

Einn lögreglumaður tók eftir því að hún væri að reyna að keyra af stað og reyndi að stöðva hana. Hann telur að hún hafi notað einn eða tvo putta til að stýra bílnum, með því að snúa sér.

„Hún var eiginlega á hlið og var að reyna að ná bílnum í gír og svo keyrði hún í burtu.“

Konan ók á miklum hraða í mikilli umferð áður en hún stöðvaði bílinn og bað vegfarenda um að hjálpa sér við að keyra bílinn, þar sem hún var enn handjárnuð. Skömmu seinna yfirgaf hún þó bílinn og sést hún hlaupa framhjá myndavélinni með hendurnar í járnum fyrir aftan bak.

Hún var handtekin skömmu seinna og fundust nálar á henni.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur konan verið ákærð fyrir fjölda brota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×