Enski boltinn

Jose Mourinho: Þegar ég sé hann þá slekk ég á sjónvarpinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Lucas Leiva rífast.
Jose Mourinho og Lucas Leiva rífast. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, er enn að tala um herferð gegn sér og núna er sökudólgurinn einn knattspyrnusérfræðingurinn í sjónvarpinu. Mourinho vildi þó ekki nefna hann á nafn í viðtölum eftir leik.

Mourinho er sérstaklega pirraður út í herferðina gegn Diego Costa sem varð þó uppvís að því að stíga tvisvar sinnum á leikmann Liverpool í gær. Portúgalinn brást því illa við þegar hann varð spurður út í hegðun Costa eftir sigurinn á Liverpool í gær.

„Ég tel að þú sért undir áhrifum frá ... Ég ætla að nota orð sem hefur komið mér áður í vandræði en ég tel þó að þeir geti ekki refsað mér núna fyrir að segja að það sé herferð gegn mér í sjónvarpinu og þá sérstaklega hjá einum spekingi. Hann er alltaf að tala um Diego Costa glæpi. Þessi gæi hlýtur að vera klikkaður," sagði Jose Mourinho við BBC.

„Þessir gæjar í sjónvarpinu hafa frábært sæti, fá vel borgað og það er engin pressa á þeim. Þeir hafa líka alltaf rétt fyrir sér, þeir tapa aldrei, vinna alltaf. Þeir verða hinsvegar að vera sanngjarnir og þeir verða að segja satt," sagði Mourinho.

„Gleymum þessu bara og förum á Wembley. Ég veit ekki hvað hann heitir því þegar ég sé hann þá slekk ég á sjónvarpinu," sagði Mourinho en flestir telja það að hann sé að ræða Jamie Redknapp, fyrrum leikmann Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×