Erlent

„Það er allt í góðu núna, ég er góður eiginmaður“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má er húsið gjörónýtt.
Eins og sjá má er húsið gjörónýtt. Vísir
Maður í New York, sem leigði sér jarðýtu og jafnaði hús sitt við jörðu, sagði hinum eigandanum að húsinu, konunni sinni, ekki frá fyrirætlunum sínum.

Lögreglan handtók manninn á mánudag þegar hann var að brjóta niður húsið. Hann sagði undirstöður hússins gjörónýtar en hann hafði ekki tilskilin leyfi til að jafna það við jörðu.  

Aðspurður hvers vegna hann lét ekki konuna sína vita gaf hann þá skýringu að hann hefði reynt að hringja í hana áður en hann byrjaði en hún hafði ekki svarað.

Nágranni hjónanna sagði að konan hefði verið í miklu uppnámi þegar hún kom heim og sá húsið. Hún hafi öskrað „Húsið mitt! Hvað kom fyrir húsið mitt?“

Maðurinn sagði að kona sín hefði verið miður sín yfir þessu í fyrstu en að hún væri komin yfir þetta.

„Það er allt í góðu núna. Ég er góður eiginmaður, hvað get ég sagt?“

Maðurinn hefur engu að síður verið kærður fyrir eignaspjöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×