Erlent

Verk eftir Paul Gauguin dýrasta málverkið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dýrasta málverk heimsins.
Dýrasta málverk heimsins. mynd/wikipedia
Málverk af tveimur tahítískum stúlkum eftir Frakkann Paul Gauguin varð í dag dýrasta málverk sögunnar. Verkið var selt á 197 milljónir punda en það eru litlir fjörutíu milljarðar króna.

Svissneskur safnari átti verkið sem kallast When Will You Marry? og var málað árið 1892. Ekki hefur verið gefið upp hver keypti verkið en líklegt þykir að hann tengist konungsfjölskyldunni í Katar sem á síðustu árum hefur varið hundruðum milljarða til að kaupa listaverk. Verkið hafði verið til sýnis á listasafni í Basel en eigandi þess ákvað að selja það eftir að deila kom upp á milli hans og stjórnenda safnsins.

Þar til í dag hafði The Card Players eftir Paul Cezanne verið dýrasta verkið en það var selt til Qatar árið 2011 fyrir 158 milljónir punda. Þetta eru einu tvö verkin sem selst hafa fyrir meir en hundrað milljónir punda.

Á hæla þeirra fylgja verk á borð við The Studies of Lucian Freud eftir Francis Bacon, Ópið, málað af Norðmanninum Edvard Munch og No. 5 eftir Jackson Pollock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×