Innlent

Þýðendur ósáttir við Sigrúnu: „Vegið að heiðri og fagmennsku “

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Ég hef líka rætt það niðri í ráðuneyti, eftir að ég kom, að ég hefði ígrundað þetta með sjálfri mér, hvort við tækjum ekki réttu íslensku orðin inn oft og tíðum,“ segir Sigrún.
"Ég hef líka rætt það niðri í ráðuneyti, eftir að ég kom, að ég hefði ígrundað þetta með sjálfri mér, hvort við tækjum ekki réttu íslensku orðin inn oft og tíðum,“ segir Sigrún. Vísir/Vilhelm
Stjórn Bandalags þýðenda og túlka furðar sig á ummælum Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra í Fréttablaðinu í dag. Sigrún segir að reglugerðafarganið sem berist í gegnum EES hafi lengi verið eitur í beinum framsóknarmanna og annarra. Hún hafi velt því upp hvort ekki sé hægt að nota mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana.

„Ég hef líka rætt það niðri í ráðuneyti, eftir að ég kom, að ég hefði ígrundað þetta með sjálfri mér, hvort við tækjum ekki réttu íslensku orðin inn oft og tíðum.“

Þýðendur segja að með ummælum ráðherra  sé „vegið að heiðri og fagmennsku þeirra þýðenda sem starfa fyrir Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins, jafnt fastráðinna starfsmanna sem verktaka.“

Eiga heiður en ekki hnút frá ráðherra skilið

Stjórn ÞOT bendir á að hugtakanotkun og málfar í EES-gerðum byggist ekki á geðþóttaákvörðunum þýðanda eða annarra hverju sinni heldur hugtakagrunni sem hefur verið byggður upp af miklum metnaði í nokkra áratugi og kostað þrotlausa vinnu.

„Þýðing á tilskipunum, reglugerðum og reyndar öllum texta sem hefur lagalegt gildi er gríðarleg nákvæmnisvinna þar sem frjálsleg túlkun á ekkert erindi.“

Þá kemur fram í tilkynningu frá ÞOT að gæðaeftirlit Þýðingamiðstöðvarinnar sé rómað og þeir þýðendur sem hafi sérhæft sig í þessum vandasömu þýðingum eigi heiður skilið en ekki hnútur frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

„Stjórn Bandalags þýðenda og túlka harmar það vanmat á störfum þýðenda sem kemur fram í orðum ráðherrans og lýsir yfir fullum stuðningi við Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins og starfsfólk hennar.“


Tengdar fréttir

Vill milda tilskipanir EES

Umhverfisráðherra vill mildara orðalag í þýðingum á Evróputilskipunum. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar vill endurmeta EES-samstarfið og skoða Schengen-aðild. Vaxandi pirrings gætir hjá Framsóknarflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×