Erlent

„Þeim er sama þó þeim sé nauðgað í vegkantinum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Sagnfræðingurinn Saleh al-Saadoon.
Sagnfræðingurinn Saleh al-Saadoon. VÍsir/Getty
Arabískur sagnfræðingur sagði nýverið í sjónvarpsviðtali að konum í Bandaríkjunum og Evrópu væri sama þó þeim væri nauðgað. Þannig vildi hann verja það að konum sé bannað að keyra bíla í Sádi-Arabíu. Viðtalið var birt í síðasta mánuði af sjónvarpsstöð í Sádi-Arabíu.

Á vef Huffington Post kemur fram að konum sem keyra í Sádi-Arabíu er meðal annars refsað með húðstrýkingu.

„Konur riðu kameldýrum á árum áður, svo það er hægt að spyrja hvað komi í veg fyrir að þær keyri bíla,“ sagði sagnfræðingurinn samkvæmt þýðingu frá MEMRI samtökunum. Hann sagði Sádi-Arabíu búa við einstakt vandamál, sem væri fjarlægðir á milli borga. Ef bíll kvenna myndi bila á vegunum á milli borga væru þær auðveld skotmörk nauðgara.

Stjórnandi þáttarins sagði þá að konur keyrðu í Bandaríkjunum, Evrópu og sumum löndum í Mið-Austurlöndum.

„Þeim er sama þó þeim sé nauðgað í vegkantinum. Okkur er ekki sama,“ sagði sagnfræðingurinn Saleh al-Saadoon.

Hinir tveir gestir þáttarins, sem og stjórnandanum, virtist brugðið við þessi orð og því fór sagnfræðingurinn aðra leið. Hann sagði að komið væri fram við konur í Sádi-Arabíu eins og drottningar með því að keyra þeim þangað sem þær vildu fara. Meðlimir fjölskyldna þeirra eða karlkyns bílstjórar keyra konur.

Stjórnandi þáttarins spurði hann þó hvort að bílstjórar þeirra geti ekki alveg eins nauðgað þeim og hvort hann hefði áhyggjur af því.

„Það er til lausn, en embættismenn og trúarleiðtogar landsins vilja ekki heyra það. Lausnin er að flytja inn erlendar konur til að keyra eiginkonur okkar.“ Við það fór þáttastjórnandinn að hlæja og spurði hvort honum væri alvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×