Erlent

Leynigögn frá síðari heimsstyrjöldinni fundust falin á hóteli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sum gögnin sem fundust eru merkt leyniþjónustu drottningarinnar.
Sum gögnin sem fundust eru merkt leyniþjónustu drottningarinnar.
Leynigögn með hernaðarskipunum vegna D-dagsins í síðari heimsstyrjöldinni fundust undir gólffjölum á hóteli í Suður-Englandi þegar endurbætur voru gerðar þar. Hálfur ruslapoki af gögnum fannst á hótelinu, sum merkt leyniþjónustu drottningarinnar.

Hótelið, Balmer Lawn í Brockenhurst, var notað sem þjálfunarbúðir fyrir herinn í seinni heimsstyrjöldinni auk þess sem það var notað til að skipuleggja D-daginn. Talið er að gögnin sem fundust þar nú tengist kanadíska hernum sem dvaldi um skeið á hótelinu í aðdraganda D-dagsins.

Á D-daginn, 6. júní 1944, réðust hersveitir bandamanna inn í Normandí í Frakklandi en Þjóðverjar höfðu hernumið landið. Innrásin er talin einn af lykilatburðum seinni heimsstyrjaldarinnar og orrustan sem þar var háð ein af þeim orrustum sem lögðu grunninn að sigri bandamanna í styrjöldinni.

Uppfært klukkan 11.15: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var vitlaust farið með dagsetningu D-dagsins. Vísir þakkar ábendingar frá lesendum og hafa mistökin nú verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×