Erlent

Lífstíðarfangelsi fyrir að drepa þrjátíu sjúklinga

Atli Ísleifsson skrifar
Hjúkrunarfræðingurinn er kallaður Niels H í þýskum fjölmiðlum.
Hjúkrunarfræðingurinn er kallaður Niels H í þýskum fjölmiðlum. Vísir/AFP
Dómstóll í Þýskalandi dæmdi í dag 38 ára hjúkrunarfræðing í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa banað þrjátíu sjúklingum sínum.

Maðurinn, sem í þýskum fjölmiðlum er kallaður Niels H, játaði að hafa eitrað fyrir fórnarlömbum sínum. Sagðist hann hafa stjórnast af augnablikshvöt og hefur beðið ættingja fórnarlamba sinna afsökunar.

Maðurinn drap fólkið þegar hann starfaði á bráðadeild á sjúkrahúsi í Delmenhorst í Neðra Saxlandi á árunum 2003 til 2005. Í frétt BBC segir að talið sé að hann hafi eitrað fyrir sextíu til viðbótar, en að þeir hafi þó komist lífs af.

Árið 2008 var maðurinn dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir morðtilraun, en við frekari rannsókn lögreglu varð umfang málsins ljóst.

Lögreglurannsókn hefur leitt í ljós að mögulegt sé að fórnarlömb mannsins séu í raun mun fleiri. Um 200 dauðsföll til viðbótar hafa verið rannsökuð, meðal annars tilvik á sjúkrahúsum í Oldenburg og Wilhelmshaven þar sem hann hafði einnig starfað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×