Erlent

Þing Argentínu leysir upp leyniþjónustuna

Atli Ísleifsson skrifar
Cristina Fernandez de Kirchner, forseti Argentínu.
Cristina Fernandez de Kirchner, forseti Argentínu. Vísir/AFP
Þingið í Argentínu hefur samþykkt frumvarp sem kveður á um að leyniþjónusta landsins verði leyst upp. Ný alríkisstofnun sem er ábyrg gagnvart þinginu mun leysa leyniþjónustuna af hólmi.

Cristina Fernandez de Kirchner, forseti landsins, kynnti frumvarpið í síðasta mánuði í kjölfar andláts saksóknarans Alberto Nisman.

Forsetinn sakaði þá þrjót innan leyniþjónustunnar um að afhenda Nisman fölsuð gögn, en Nisman vann þá að rannsókn um starfsemi ríkisstjórnarinnar.

Í frétt BBC segir að neðri deild Argentínuþings hafi samþykkt frumvarpið með 131 atkvæði gegn 71. Öldungadeild þingins hafði þá þegar samþykkt frumvarpið.

Stjórnarandstæðan hefur lýst yfir óánægju með að samkvæmt nýjum lögum verði öllum upptökum komið í hendur dómsmálaráðuneytisins í stað leyniþjónustunnar. Tengsl milli leyniþjónustu og ríkisstjórnar verði því of náin samkvæmt hinu nýja frumvarpi.

Búist er við að hinni nýju stofnun verði komið á fót innan 90 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×