Erlent

Lögreglumaður dró geðsjúka konu um gólf dómshúss – Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglumaðurinn hefur verið settur í leyfi á meðan að atvikið er rannsakað.
Lögreglumaðurinn hefur verið settur í leyfi á meðan að atvikið er rannsakað.
Lögreglumaður í Flórída í Bandaríkjunum dró konu eftir göngum dómshúss, einungis nokkrum mínútum eftir að læknar sögðu hana eiga við geðræn vandræði að stríða. Konan sem heitir Dasyl Rios hefur í nokkur skipti verið færð á stofnun gegn vilja sínum.

Móðir hennar var með henni í dómsal, segir að dóttir sín sé með tvíhverfa geðhvarfasýki. Hún fór ekki með dóttur sinni úr salnum þar sem hún var að taka saman dótið þeirra. Þá heyrði hún mikinn dynk og áttaði sig á því að eitthvað hefði gerst. Hún hljóp út og sá lögreglumann draga dóttur sína eftir gólfinu.

Vitni segja New York Daily News að Rios hafi setið á bekk og grátið þegar lögreglumaðurinn dró hana af bekknum. Aðrir lögreglumenn fylgdust með eða hjálpuðu Johnson, en enginn þeirra reyndi að reisa hana við eða stöðva Johnson.

Johnson skrifaði í skýrslu sína um atvikið að hann hefði óttast að Rios myndi valda fjaðrafoki á göngum dómshússins. Því vildi hann koma henni fljótt í burtu og dró hana á fótunum í gegnum fjölmennan gang. Lögmaður sem var í dómshúsinu tók atvikið upp á myndband.

Á myndbandinu má sjá Rios gráta og kalla á móður sína. Hún sagði lögreglumanninum að það eina sem hún hafi viljað hafi verið að sitja í friði og gráta í nokkrar mínútur.

Rios var flutt frá dómshúsinu á geðsjúkrahús en fjölskylda hennar mun fara yfir stöðu sína, þegar fullvisst er um að hún hafi náð sér. Lögreglumaðurinn hefur verið settur í leyfi á meðan að atvikið er rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×