Erlent

Vilja að fastaríki öryggisráðsins afsali sér neitunarvaldi

Atli Ísleifsson skrifar
Salil Shetty er framkvæmdastjóri Amnesty International.
Salil Shetty er framkvæmdastjóri Amnesty International. Vísir/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa hvatt ríkin fimm sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að afsala sér neitunarvaldi sínu í þeim málum þar sem ráðið tekur fyrir mál þar sem stórfelld grimmdarverk hafa verið framin.

Samtökin hafa nú birt ársskýrslu sína þar sem fram kemur að viðbrögð alþjóðasamfélagsins við hamförum og styrjöldum á árinu 2014 hafi verið skammarleg. Afstaða auðugra ríkja hafi verið „andstyggileg“ þar sem þau hafi ekki tekið við fleiri flóttamönnum en raun bar vitni.

Í frétt BBC kemur fram að samtökin telji horfur fyrir árið 2015 ekki vera góðar. Að dómi samtakanna hafi árið 2014 verið skelfilegt ár fyrir fórnarlömb átaka og ofbeldis. Leiðtogar heims þurfi umsvifalaust að bregðast við til að geta tekist á við breytt eðli vopnaðra átaka í heiminum.

Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty, segir í yfirlýsingu að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi herfilega mistekist að vernda öryggi óbreyttra borgara. Þess í stað hafi fastaríkin fimm – Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland og Frakkland – beitt neitunarvaldi sínu til að tryggja eiginhagsmuni sína eða landfræðipólitíska hagsmuni, í stað þess að tryggja öryggi óbreyttra borgara.

Samtökin telja að hluti lausnarinnar væri að fastaríkin myndu afsala sér neitunarvaldi sínu í málum sem tengjast fjöldamorðum og þjóðarmorðum.

Færa samtökin rök fyrir því að ef slíkt fyrirkomulag væri nú þegar í gildi hefði það til að mynda komið í veg fyrir að Rússland myndi ítrekað beita neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir aðgerðir af hálfu Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×