Erlent

Beitti neitunarvaldi gegn olíuleiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Barack Obama forseti Bandaríkjanna neitaði í gær að staðfesta lög um lagningu olíuleiðslu á milli Bandaríkjanna og Kanada. Repúblikanar hafa meirihluta í báðum deildum þingsins, en einhverjir Demókratar eru ósammála forsetanum. Því vantar einungis nokkur atkvæði til að þingið geti sniðgengið forsetann og keyrt lögin í gegn. 

„Ég tek neitunarvald forsetans alvarlega,“ hefur AP fréttaveitan eftir Obama. „En ég tek ábyrgðarhlutverk mitt gagnvart bandarísku þjóðinni einnig alvarlega.“

John Boehner, forseti þingsins og leiðtogi Repúblikana, segir þá ekki nærri því að vera hættir og sagði neitun forsetans vera hneyksli fyrir þjóðina. Repúblikanar segja að bygging olíuleiðslunnar myndi búa til störf og auka sjálfstæði Bandaríkjanna í orkumálum. Demókratar og umhverfissinnar segja leiðsluna hins vegar tákn óumhverfisvænnar orku sem að ýti undir hnatthlýnun.

Hingað til hefur Obama beitt neitunarvaldi þrisvar sinnum, sem er sjaldnar en hjá forverum hans. Hann beitti því síðast í október 2010. Þrátt fyrir að hann hafi beitt valdinu sjaldan hefur hann hótað því margsinnis frá því að Repúblikanar tóku völdin í báðum deildum þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×