Erlent

Níu manns látnir í skotárás í Tékklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í bænum Uherský Brod í austurhluta landsins.
Árásin átti sér stað í bænum Uherský Brod í austurhluta landsins. Vísir/AP
Níu manns eru látnir eftir að karlmaður um sextugt hóf skothríð inni á veitingastað í Tékklandi fyrr í dag.

Árásin hafi átt sér stað í bænum Uherský Brod, suðaustur af borginni Brno í austurhluta Tékklands.

Að sögn AFP réðst maðurinn inn á veitingastaðinn og byrjaði þá að skjóta í allar áttir. Á fjórða tug manna voru inni á staðnum þegar árásarmaðurinn hóf skothríðina, en sjónarvottar segja hann hafa skotið um 25 sinnum úr byssum sínum.

Árásarmaðurinn á að hafa hringt í sjónvarpsstöðina Prima skömmu fyrir árásina og greint frá því hvað hann hafði í hyggju. Maðurinn hélt gestum og starfsmönnum í gíslingu.

Eftir að tilkynning barst mætti sérsveit lögreglu á staðinn og gerði fljótlega áhlaup. Borgarstjóri Uherský Brod segir að árásarmaðurinn hafi þá verið búinn að svipta sig lífi.

Búið er að flytja fjölda særðra á sjúkrahús.

Innanríkisráðherra landsins, Milan Chovanec, er nú á leið til bæjarins. Hann segir margt benda til þess að ekki hafi verið um hryðjuverkaárás að ræða, en borgarstjóri Uherský Brod segir að maðurinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða.

Uherský Brod í Tékklandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×