Erlent

Farþegalest fór út af sporinu í Kaliforníu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Farþegalest fór út af sporinu í Oxnard í Kaliforníu í Bandaríkjunum síðdegis í dag. Þrír vagnar sem voru með farþega innanborðs ultu af teinunum þegar lestin skall á flutningabíl sem var á teinunum.

  • Lest var ekið á bíl sem var staðsett á lestarteinum í Oxnard
  • Að minnsta kosti 30 eru slasaðir
  • Fjórir vagnar fóru af sporinu; þar af þrír með farþegum
  • Lögreglan segir að allir hafi komist lífs af frá slysinu
Oxnard er merkt með rauðum punkti á kortinu.Google Maps
Samkvæmt LA Times eru minnst 30 slasaðir. Lögreglan hefur gefið út að enginn hafi látist í slysinu. Fyrstu fréttir af slysinu sögðu að einhverjir hefðu látist og var haft eftir slökkviliðinu í Ventura sýslu að talið væri að nokkrir væru látnir.

Á myndum frá slysstað sést hvar vagnar lestarinnar liggja á hliðinni fyrir utan lestarteinana. Þá sést einnig brunnið hræ bílsins sem lestin skall á. 



Áreksturinn varð um klukkan tuttugu mínútur í sex í morgun að staðartíma við Rice Road gatnamótin, að því er talsmaður Metrolink, eiganda lestarinnar, segir í samtali við LA Times. 

Samkvæmt tísti frá Samgönguöryggisráði Bandaríkjanna er nú unnið að því að safna upplýsingum um slysið. Ráðið fer með rannsókn slysa á borð við þetta.



Samkvæmt upplýsingum frá Metrolink voru farþegavagnarnir þrír búnir sérstakri tækni sem á að minnka högg á farþega þegar slys verða. Fjórði vagninn sem fór út af sporinu sem hafði að geyma reiðhjól var ekki búinn sömu tækni.

Uppfært klukkan 16.07.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×