Erlent

Dregur úr líkum á hnetuofnæmi ef börn kynnast hnetum á unga aldri

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsóknarteymið hafði áður komist að því að ofnæmi meðal barna gyðinga í Ísrael sem byrjuðu að borða hnetur ung, væri tíu sinnum lægra en á meðal barna gyðinga í Bretlandi.
Rannsóknarteymið hafði áður komist að því að ofnæmi meðal barna gyðinga í Ísrael sem byrjuðu að borða hnetur ung, væri tíu sinnum lægra en á meðal barna gyðinga í Bretlandi. Vísir/Getty
Börn sem fá að bragða á jarðhnetum á unga aldri eru ólíklegri til að þróa með sér hnetuofnæmi á síðari árum. Þetta er niðurstaða nýrrar breskrar rannsóknar og sagt er frá á vef BBC.

Vísindamennirnir við King's College í London rannsökuðu 640 börn sem fyrirfram voru talin líkleg að þróa með sér hnetuofnæmi. Leiddi rannsóknin í ljós að líkur á hnetuofnæmi voru rúmlega 80 prósent minni á meðal þeirra barna sem höfðu komist í kynni við jarðhnetur á unga aldri.

Í frétt BBC segir að sérfræðingar segi niðurstöðurnar geti mögulega verið heimfærðar á aðrar tegundir af ofnæmi, en vara jafnframt foreldra við að gera tilraunir heima fyrir.

Rannsóknarteymið hafði áður komist að því að ofnæmi meðal barna gyðinga í Ísrael sem byrjuðu að borða hnetur ung, væri tíu sinnum lægra en á meðal barna gyðinga í Bretlandi.

Vísindamennirnir rannsökuðu börn á aldrinum fjögurra til ellefu mánaða sem höfðu exem, en börn með exem eru líklegri til að þróa með sér ofnæmi síðar meir.

Mælst er til þess að börn undir fimm ára aldri eigi ekki að borða heilar jarðhnetur vegna hættu á köfnun, svo helmingur barnanna var reglulega gefinn matur sem innihélt jarðhnetur, en hinn helmingurinn var látinn forðast allan mat sem innihélt jarðhnetur.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddi í ljós að fyrir hver 100 börn, þá myndu fjórtán þeirra vanalega þróa með sér ofnæmi fyrir fimm ára aldur. Þetta hlutfall féll hins vegar um 86 prósent, eða einungis tvö börn af hverjum hundrað, á meðal þeirra barna sem komust í kynni við jarðhnetur á unga aldri.

Sagt er frá rannsókninni í New England Journal of Medicine.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×