Erlent

Sendiherra Bandaríkjanna skorinn í andliti

Atli Ísleifsson skrifar
Sendiherrann Mark Lippert skarst einnig á vinstri hendi og spýttist blóð yfir morgunverðarborðið.
Sendiherrann Mark Lippert skarst einnig á vinstri hendi og spýttist blóð yfir morgunverðarborðið. Vísir/AFP
Sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu slapp lítið meiddur eftir að kóreskur þjóðernissinni réðst á hann og skar hann í andliti á morgunverðarfundi í suður-kóresku höfuðborginni Seúl í morgun.

Sendiherrann Mark Lippert skarst einnig á vinstri hendi og spýttist blóð yfir morgunverðarborðið.

Í frétt BBC segir að öryggisverðir hafi svo náð að yfirbuga árásarmanninn, þar til lögregla tók manninn höndum.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lýst árásinni sem réttlátri refsingu fyrir bandaríska stríðsæsingamenn. Árásarmaðurinn hefur nú verið nafngreindur, en hann heitir Kim Ki-jong.

Lögregla í Suður-Kóreu bíður nú heimildar til að gera leit á heimili mannsins og kanna nú hvort Kim tengist stjórnvöldum í Norður-Kóreu nánum böndum.

Lippert var fluttur á sjúkrahús og tísti nokkru síðar um að honum liði vel og að hann myndi snúa aftur við fyrsta tækifæri til halda áfram að efla tengsl Bandaríkjanna og Suður-Kóreu.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hringdi í sendiherrann þar sem hann óskaði honum skjóts bata.

Árásarmaðurinn Kim Ki-jong.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×