Erlent

Skutu mann til bana sem hélt á skrúfjárni

Samúel Karl Ólason skrifar
Jason Harrison kom til dyra haldandi á skrúfjárni.
Jason Harrison kom til dyra haldandi á skrúfjárni.
Fjölskylda manns sem skotinn var til bana af lögregluþjónum hefur birt myndband af atvikinu. Málaferli standa nú yfir vegna málsins, en fjölskyldan kærði lögregluþjónana fyrir að skjóta manninn, sem átti við geðræn vandamál að stríða. Fjölskyldan segist hafa birt myndbandið til að koma á breytingum hjá lögreglunni í Dallas.

Móðir Jason Harrison hafði hringt á lögregluna og beðið um hjálp við að koma honum á sjúkrahús. Harrison var haldinn geðhvarfasýki og geðklofa.

Hann kom til dyra með skrúfjárn í hendinni og minna en hálfri mínútu eftir að lögregluþjónarnir bönkuðu, hafði hann verið skotinn fimm sinnum. Fjölskyldan segir að lögreglan hafi vitað af veikindum Harrison, en í stað þess að reyna að róa hann, hafi þeir einfaldlega skotið hann til bana.

Sérfræðingar sem Dallas Morning News ræddi við eru ósammála um hvort að lögregluþjónarnir hafi brugðist rétt við.

„Þeir stóðu sig fullkomlega,“ sagði Keith Wenzel, fyrrverandi þjálfari hjá lögreglunni í Dallas. Hann sagði að hefðu ekki átt aðra kosti.

Annar þjálfari sagði hins vegar að hann ætlaði að nota myndbandið til að sýna lögregluþjónum hvað þeir ættu ekki að gera.

„Þetta er það versta sem ég hef séð á ævinni. Þeir brugðust mjög illa við,“ sagði Cecile Tebo. Hún sagði að lögregluþjónarnir hefðu átt að tala rólega við Harrison til að draga úr spennu og skapa svigrúm til að fjarlægjast hann




Fleiri fréttir

Sjá meira


×