Erlent

75 ár liðin frá hernámi í Danmörku

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Danir minntust hernámsins í Frederikshavn 2011.
Danir minntust hernámsins í Frederikshavn 2011. Vísir/Epa
Í dag eru 75 ár liðin frá því að Þjóðverjar hernámu Danmörku. Þessi atburðarás hafði gríðarleg áhrif á Ísland, en hernám Danmerkur markar í raun endalok konungsveldis hér á landi. Allar samgöngur rofnuðu milli landanna og Bretar hernámu Ísland rúmum mánuði síðar.

Árás Þýskalands inn í Danmörku var óvænt og áttu Danir litla möguleika gegn herafli Þýskalands. Mikil mótstaða hefði eflaust endað með óþarfa mannfalli og eyðileggingu.

Herseta bandamanna hér á landi hafði mun betri áhrif á Íslendinga en herseta nasista í Danmörku. Þrátt fyrir að dönsk stjórnvöld reyndu eftir bestu getu að láta sem ekkert hefði í skorist, breyttist sú staða fljótt eftir að afskiptasemi Þjóðverja jókst. Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði 1944, áður er stríðinu lauk, var á þeim tíma mjög slæmt ástand í Danmörku. Andspyrna heimamanna hafði aukist er andstæðingar nasista voru myrtir og um 300 höfðu látist í loftárásum bandamanna.

Hernám Danmerkur stóð yfir í fimm ár og stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja. Bandamenn voru þó ekki komnir til Danmerkur á þeim tíma og því ríkti hálfgerð óvissa í landinu. Her Þjóðverja var óviss hvort bíða ætti eftir herliði bandamanna og gefast upp fyrir þeim eða afhenda andspyrnunni í Danmörku vopn sín. Eftir nokkra daga af ringulreið kom breski herinn og tryggði friðsamlega uppgjöf Þjóðverja í maí 1945.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×