Til greina kemur að Kasakstan sækist eftir því að fá að halda HM 2026 í knattspyrnu. Ísland lék gegn Kasakstan í Astana um helgina í undankeppni EM 2016 og vann 3-0 sigur.
Kasakar búa að miklum olíuauði, rétt eins og Rússland og Katar sem halda næstu tvær heimsmeistarakeppnir í knattspyrnu, en formaður knattspyrnusambands Kasaka sagði í samtali við franska blaðið L'Equpie að sambandið ætti nú í viðræðum við ríkisstjórn landsins um mögulega umsókn.
Kasakstan á aðild að Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, og gæti verið að Evrópuþjóðir fái ekki að sækja um HM 2026 svo stuttu eftir að HM fari fram í Rússlandi. Nú þegar er ljóst að Asíuþjóðir fá ekki að sækja um HM 2026.
Umsóknarreglur verða ákveðnar á fundi framkvæmdarstjórnar UEFA í lok maí og ákvörðun verður tekin um hvar keppnin verður haldin á ársþingi FIFA árið 2017.
Sem stendur þykja Bandaríkjamenn einna líklegastir til að hreppa hnossið en Mexíkó og Kanada hafa einnig lýst áhuga á keppninni. Þá er Kólumbía einnig sagt áhugasamt.
Kasakstan hefur einnig sóst eftir því að halda Vetrarólympíuleikana árið 2022 í Almaty.
