Erlent

„Raðmorðinginn“ Thomas Quick frjáls ferða sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Sture Bergwall var áður þekktur undir nafninu Thomas Quick og var lengi talinn mesti raðmorðingi Norðurlandanna.
Sture Bergwall var áður þekktur undir nafninu Thomas Quick og var lengi talinn mesti raðmorðingi Norðurlandanna. Vísir/AFP
Dómstóll í Svíþjóð hefur úrskurðaði í morgun að Sture Bergwall muni ekki lengur þurfa að sæta meðferð á geðdeild. Lögmaður Bergwall greindi frá þessu í samtali við sænska fjölmiðla.

Bergwall var áður þekktur undir nafninu Thomas Quick og var lengi talinn mesti raðmorðingi Norðurlandanna.

Bergwall játaði á sig átta morð sem framin voru í Svíþjóð á árunum 1976 til 1988, auk þess að hann sagðist hafa framið á þriðja tug morða í Finnlandi og Noregi.

Árið 2008 dró hann játningar sínar skyndilega til baka þar sem hann sagðist bæði hafa verið undir áhrifum sterkra lyfja og athyglissjúkur þegar hann játaði á sig morðin.

Árið 2013 var hann svo hreinsaður af öllum átta dómum sem hann hlaut fyrir morð. Honum var þó áfram gert að sæta meðferð á geðdeild, en eins og áður segir er Bergwall nú frjáls ferða sinna.

„Nú er ég frjáls. Raunverulega frjáls,“ sagði Bergwall þegar hann yfirgaf réttarsalinn í morgun eftir úrskurð dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×