Erlent

Ár liðið frá ferjuslysinu við strendur Suður-Kóreu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá minningarathöfn í Suður-Kóreu í dag.
Frá minningarathöfn í Suður-Kóreu í dag. Vísir/AFP
Ár er nú liðið frá því að suður-kóreska ferjan Sewol fórst undna ströndum Jindo-eyjunnar, þriðju stærstu eyju Suður-Kóreu. Alls fórust 304 með ferjunni, flestir ungir námsmenn, en slysið vakti gríðarlega reiði og sorg í Suður-Kóreu.

Öryggismál og viðbragðsáætlanir björgunaraðila hafa meðal annars sætt mikilli gagnrýni í kjölfar slyssins en of margir voru um borð í ferjunni sem hafði einnig verið endurhönnuð ólöglega, að því er segir í frétt BBC.

Enn á eftir að finna líkamsleifa níu af þeim sem fórust og hafa ættingjar kallað eftir því að ferjan verði dregin af hafsbotni. Forseti Suður-Kóreu, Park Guen-hye, hét því í dag að það yrði gert en áætlað er að það kosti allt að 110 milljónir bandaríkjadala.

Meirihluti áhafnarinnar lifði af en skipstjórinn og þrír aðrir háttsettir áhafnarmeðlimir hlutu langa fangelsisdóma fyrir að gæta ekki nógu vel að öryggi farþega. Þá fengu 11 til viðbótar úr áhöfninni fangelsisdóma vegna slyssins.

Minningarathafnir eru haldnar í dag víða um Suður-Kóreu, sú stærsta í borginni Ansan, en þaðan var meirihluti þeirra nemenda sem lést í slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×