Viðskipti innlent

Kaupþingsmenn dæmdir til að greiða tæpan milljarð vegna kúluláns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson, Ingólfur Helgason og Steingrímur Kárason þurfa allir að borga tæpar 185 milljónir króna vegna lánsins.
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson, Ingólfur Helgason og Steingrímur Kárason þurfa allir að borga tæpar 185 milljónir króna vegna lánsins. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fimm fyrrum stjórnendur Kaupþings til að greiða tæpan milljarð króna vegna skuldar sem er tilkomin vegna jarðakaupa þeirra við laxveiðiána Langá í Borgarfirði.

Málið var höfðað af Dróma árið 2012 en skuldin er nú hjá Hildu ehf. sem er dótturfélag Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands.

Fimmmenningarnir sem um ræðir eru forstjórinn Hreiðar Már Sigurðsson, stjórnarformaðurinn Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, sem var forstjóri bankans á Íslandi, Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri bankans í Lúxemborg, og Steingrímur P. Kárason, sem var yfirmaður áhættustýringar bankans fyrir hrun.

Sjá einnig: Drómi vill milljarð frá Kaupþingstoppunum

Skuld Kaupþingsmanna er tilkomin vegna jarðakaupa þeirra við Langá í Borgarfirði.Vísir/GVA
Tóku nýtt lán eftir hrun til að borga gamla lánið

Skuldin er vegna kúluláns sem félagið Hvítsstaðir tók hjá SPRON árið 2005 til að kaupa félagið Langárfoss ehf. Lánið var í japönskum jenum og hljóðaði upp á 570 milljónir jena. Það var þó greitt út í íslenskum krónum í október árið 2005. Fimmmenningarnir í Kaupþingi áttu hver um sig fimmtung í Hvítsstöðum og gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu.

Hvítsstaðir greiddu vexti af láninu í október 2006, 2007 og 2008 en í kjölfar bankahrunsins gerði félagið nýjan samning við SPRON. Gamla lánið var þá greitt upp að fullu með nýja láninu og var höfuðstóll lánsins rúmlega 729 milljónir króna.

Í lánasamningnum var því lýst að lánið skyldi greiðast til baka á fjórum gjalddögum en þar af voru þrír vaxtagjalddagar. Fyrsti gjalddagi vaxta var 20. desember 2010 og síðan átti að greiða vexti af láninu á tólf mánaða fresti. Gjalddagi höfuðstóls afborgunar og vaxta, lokagjalddagi lánsins, var 20. desember 2013 og gengust Hreiðar, Sigurður, Ingólfur, Magnús og Steingrímur í sjálfsskuldarábyrgð fyrir láninu. Þá veitti Langárfoss ehf. veðleyfi í fasteign félagsins á grundvelli tveggja tryggingarbréfa.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Hvítsstaðir hafi ekki greitt vaxtaafborgun á fyrsta gjalddaga og því hafi lánið verið gjaldfellt, samkvæmt lánasamningi. Félaginu og eigendum þess var svo stefnt fyrir dóm til að fá skuldina greidda.

Sjá einnig: Steingrímur Páll greiði Arion banka milljarð

Lánið þrefaldaðist á þremur árum

Kaupþingsmenn fóru fram á sýknu í málinu eða að skuldin yrði lækkuð. Gerðu þeir það meðal annars á grundvelli brostinna forsenda en í dómnum kemur fram að höfuðstóll lánsins hafi nærri þrefaldast frá því sem hann var þegar lánssamningurinn var undirritaður og þar til lánið var endurfjármagnað árið 2008. Á sama tíma hafi verðmæti jarðarinnar rýrnað.

Héraðsdómur féllst á kröfur stefnanda og dæmdi fimmmenningana til að greiða tæpan milljarð króna.Vísir/Pjetur
Hlutabréfin urðu að engu en skuldirnar stóðu eftir

Þá bentu þeir jafnframt á að lánveitandinn hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni varðandi ábyrgðarmenn. Einnig byggðu þeir kröfur sínar á því að lánveitandi hafi óskað eftir sjálfskuldarábyrgð fimmmenninganna og þeir orðið við því enda áttu þeir verulegar eignir í hlutabréfum þegar lánssamningurinn var undirritaður. Þær eignir hafi hins vegar orðið að engu í bankahruninu en skuldirnar staðið eftir.

„Þrátt fyrir að stefndu hafi átt umtalsverðar eignir á sínum tíma og haft þekkingu á bankaviðskiptum breyti það því ekki að staða þeirra sé ekki sambærileg stöðu lánveitanda, sem hafi allt aðra möguleika en stefndu, á að dreifa áhættu sinni og meta hana. Stefndu byggja á því að stefnandi verði að bera að einhverju leyti ábyrgð á þeirri ákvörðun að veita lán með viðmiðun í erlenda mynt félagi sem fyrirsjáanlega hafi engar tekjur í erlendri mynt,“ segir í dómi héraðsdóms en dómarinn féllst ekki á þetta sjónarmið Kaupþingsmanna.



Sjá einnig: Þungur dómur yfir Hreiðari staðfestur


Gengið út frá því að þeir hafi haft fullan skilning á áhættunni

„Ljóst er að stefndu Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson áttu hver um sig 20% hlut í stefnda Hvítsstöðum ehf. Störfuðu þeir allir innan bankageirans og bjuggu yfir víðtækri fjármálaþekkingu. Er því ekki um aðstöðumun á aðilum að ræða. Þá verður hvorki séð að efni lánssamningsins né atvik eftir samningsgerðina gefi tilefni til að víkja samningnum til hliðar. Verður að ganga út frá því að stefndu hafi haft fullan skilning á þeirri áhættu sem lántaka í erlendum myntum hefur í för með sér.“

Þeir voru því hver um sig dæmdur til að greiða tæpar 185 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum eða tæpan milljarð alls. Þá var veðréttur í fasteigninni að Langárfossi jafnframt staðfestur.

Hreiðar Már, Magnús og Sigurður voru sem kunnugt er dæmdir til fangelsisvistar á dögunum fyrir aðkomu sína að Al-Thani málinu svonefnda.


Tengdar fréttir

Steingrímur Páll greiði Arion banka milljarð

Hæstiréttur hefur dæmt Steingrím Pál Kárason til að greiða Arion banka milljarð vegna lána sem hann tók hjá Kaupþingi til kaupa á hlutabréfum í bankanum.

Steingrímur Páll þarf að greiða þrotabúi Kaupþings 91 milljón

Steingrímur Páll Kárason sem var framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi bankans 91 milljón króna ásamt vöxtum. Slitastjórn Kaupþings á nú í viðræðum við Sigurð Einarsson um 550 milljóna króna kröfu sem hann var dæmdur til að greiða þrotabúinu í fyrra. Slitastjórn Kaupþings kyrrsetti eignir Sigurðar upp á þriðja hundrað milljónir króna.

Ingólfur persónulega ábyrgur - þarf að greiða rúman milljarð

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, þarf að greiða rúman milljarð af lánum sem hann fékk til hlutabréfakaupa fyrir hrun. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu slitastjórnar Kaupþings um að hafna niðurfellingu á persónulegri ábyrgð Ingólfs á láni sem honum hafði verið veitt til hlutafjárkaupa. Lánið fékk hann í maí árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×