Erlent

Stúdentar búa frítt á dvalarheimili aldraðra

Atli Ísleifsson skrifar
Sex stúdentar búa frítt á heimilinu gegn því að þeir verji þrjátíu klukkustundum í mánuði með hinum eldri heimilismönnum.
Sex stúdentar búa frítt á heimilinu gegn því að þeir verji þrjátíu klukkustundum í mánuði með hinum eldri heimilismönnum. Mynd/Humanitas
Rekstraraðilar dvalarheimilis aldraðra í hollenska bænum Deventer bjóða stúdentum að búa frítt á heimilinu gegn því að þeir umgangist aðra heimilismenn í nokkrar klukkustundir á dag.

„Það er mjög mikill kærleikur á milli þeirra,“ segir í forsvarsmaður verkefnisins í samtali við PBS.

Dvalarheimilið er í hollenska bænum Deventer, um tveggja klukkustunda akstur norður af Amsterdam. Sex stúdentar búa frítt á heimilinu gegn því að þeir verji þrjátíu klukkustundum í mánuði með hinum eldri heimilismönnum.

Humanitas-stofnunin stendur á bakvið verkefnið. „Stúdentarnir koma því sem er að gerast í heiminum inn til þeirra gömlu. Það er mikill kærleikur á milli þeirra,“ segir Gea Sijpkes, forsvarsmaður Humanitas.

Jurriën Mantink stundar nám í hönnun og hefur búið á heimilinu í tvö ár. „Þetta snýst um að vera góður nágranni. Þau gömlu eru mjög lífsglöð og sem námsmaður er hægt að læra ýmislegt af þeim,“ segir Mantink í samtali við ABC.

Námsmennirnir aðstoða heimilismenn með hina ýmsu hluti. Þannig hafa þeir til að mynda kennt þeim á tölvu og aðstoðað við matargerð. Að sögn þeirra sem þátt taka í verkefninu er það mikilvægasta þó að umgangast fólkið og sitja og ræða saman.

Sijpkes segir hugmyndina upphaflega hafa verið þá að námsmennirnir fengju að búa ókeypis gegn því að þeir gæfu tíma sinn þannig að heimilismenn væru ekki einmana. „Ég vil að þetta sé hlýjasta og vingjarnlegasta heimilið þar sem allir vilja búa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×