Erlent

800 þúsund börn á flótta í Nígeríu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Eitt ár er nú liðið frá því að hryðjuverkasamtökin Boko Haram rændu rúmlega 200 stúlkum í bænum Chibok í Nígeríu. Í nýrri skýrslu frá UNICEF segir að fleiri en 800 þúsund börn séu nú á flótta vegna ofbeldis og átaka í landinu. UNICEF gaf út skýrsluna Horfin barnæska í tilefni þess að ár væri liðið frá ráni stúlknanna.

„Ránið á fleiri en 200 stúlkum í Chibok er því miður aðeins eitt af ótal, hræðilegum mannréttindabrotum sem sífellt fleiri börn verða fyrir um alla Nígeríu,“ er haft eftir Manuel Fontaine, framkvæmdastjóri UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Mustapha, ungur drengur sem flúði átökin í Nígeríu, teiknaði mynd á barnvænu svæði UNICEF sem lýsir reynslu hans á flóttanum.Mynd/Mustapha
Samkvæmt skýrslunni hafa meira en ein og hálf milljóna manna þurft að yfirgefa heimili sín vegna átaka á milli Boko Haram, herja Nígeríu og nágrannaþjóða þeirra og annarra vopnaðra hópa. Þar af eru rúmlega 800 þúsund börn.

Þá hafa fleiri en 300 skólar verið skemmdir eða eyðilagðir. Minnst 196 kennarar og 314 skólabörn hafa verið myrt. Ungum konum og stúlkum er nauðgað og þær neyddar í hjónaband og þrælkunarvinnu.

Í tilkynningu UNICEF segir að samtökin hafi stóraukið viðbúnað sinn vegna ástandsins. Þá segir að á næstu sex mánuðum muni þau útvega 60 þúsund börnum sálrænan stuðning og aðstoð við að vinna úr reynslu sinni.

UNICEF vinnur einnig að því að útvega hreint drykkjarvatn og og lífsnauðsynlega heilsugæslu, útbúa tímabundið kennsluhúsnæði til að veita börnum aðgengi að menntun á ný og veita vannærðum börnum nauðsynlega meðferð.

Neyðarstarf UNICEF er stutt af heimsforeldrum UNICEF, en hér á Íslandi eru rúmlega 26 þúsund heimsforeldrar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×