Erlent

Pólskur aðalsmaður skorar á Farage í einvígi

Atli Ísleifsson skrifar
Janek Żyliński fæddist í Bretlandi og hefur áður brugðist við því sem hann kallar hatur í garð samlanda sinna.
Janek Żyliński fæddist í Bretlandi og hefur áður brugðist við því sem hann kallar hatur í garð samlanda sinna.
Pólskur aðalsmaður í London hefur fengið nóg af ummælum Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, um innflytjendur og skorað á hann í einvígi með sverðum í Hyde Park.

Janek Żyliński, sem fæddist í Bretlandi, birti myndband á YouTube þar sem hann situr innan um falleg húsgögn og gylltar styttur og segir að nú sé nóg komið af bullinu í breska þingmanninum.

Farage hefur látið hörð orð falla í garð innflytjenda í Bretlandi og hefur meðal annars sakað þá um umferðartafir á hraðbrautunum.

Í myndbandinu tekur Żyliński fram sverð sem hann segir að hafi tilheyrt föður sínum, Andrzej prins, sem var stríðshetja og bjargaði lífi þúsunda gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni. Skorar Żyliński á Farage að mæta sér í einvígi í Hyde Park fyrir kosningarnar í Bretlandi þann 7. maí.

Żyliński býður Farage einnig að mæta sér í sjónvarpssal þar sem þeir gætu rætt saman, kjósi hann frekar þá leið eða ef „sverð Farage er ryðgað“.

Janek Żyliński hefur áður brugðist við því sem hann kallar „hatrið í garð samlanda sinna“. Hefur hann meðal annars birt myndband þar sem hann greinir frá sjö ástæður til að elska Pólverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×