Erlent

Þriggja ára skaut eins árs barn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt lögreglunni náði eldri drengurinn til byssunnar og skaut yngri bróðir sinn í höfuðið.
Samkvæmt lögreglunni náði eldri drengurinn til byssunnar og skaut yngri bróðir sinn í höfuðið. Vísir/AP
Þriggja ára drengur skaut eins árs gamlan bróðir sinn til bana í Cleveland í Bandaríkjunum í gær. Lögreglan segir að sá sem skildi við byssu þar sem barnið náði til verði ákærður. Samkvæmt lögreglunni var minnst einn fullorðinn heima þegar atvikið átti sér stað.

„Þriggja ára barn getur ekki verið dregið til ábyrgðar fyrir harmleik sem þennan,“ sagði Calvin Williams lögreglustjóri við blaðamenn í nótt. Samkvæmt AP fréttaveitunni sagði hann einnig að einhver fullorðinn hafi vitað af byssunni á heimilinu og ekki komið í veg fyrir að börn næðu til hennar.

Samkvæmt lögreglunni náði eldri drengurinn til byssunnar og skaut yngri bróðir sinn í höfuðið. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. Í húsinu bjó kona ásamt þremur börnum.

„Þetta er sorgardagur fyrir Cleveland,“ sagði Williams. „Þessi heillun sem við höfum af skammbyssum, ekki bara í Cleveland, heldur í Bandaríkjunum öllum, verður að enda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×