Erlent

Hópur lögreglumanna lúbarði liggjandi mann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Myndbandið er nokkuð ógnvekjandi.
Myndbandið er nokkuð ógnvekjandi. mynd/skjáskot af youtube
Nokkuð sláandi myndband hefur verið birt á myndbandaveitunni YouTube en á því sést þegar nokkrir lögreglumenn ganga harkalega í skrokk á Francis Pusok, 30 ára Bandaríkjamanni, sem hafði flúið frá heimili sínu.

Atvikið átti sér stað í San Bernardino sýslunni í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Maðurinn flúði frá heimili sínu á bíl fyrr um daginn eftir að lögreglan hafði mætt á svæðið með leitarheimild vegna lögreglurannsóknar. New York Post greinir frá.

Eftir dágóða stund yfirgaf hann bílinn, stal hrossi og hélt áfram för sinni. Eins og sést á myndbandinu fara lögreglumennirnir mikinn þegar þeir ná manninum og ganga ítrekið í skrokk á manninum sem liggur algjörlega bjargarlaus.

Lögreglustjórinn á svæðinu segir í samtali við fjölmiðla vestanhafs að málið verði nú rannsakað og sé litið alvarlegum augum.

Þyrla á vegum sjónvarpstöðvarinnar KNBC sveimaði yfir svæðinu á meðan eftirförinni stóð og náði öllu á myndband.

Lögreglumennirnir beittu meðal annars rafbyssu á manninn en samkvæmt sjónarvottum komu 13 lögreglumenn að eftirför mannsins. Hér að neðan má sjá myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×