Fótbolti

MSN komnir með meira en hundrað mörk saman á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar með Jose Maria Alvarez Pallete, forstjóra Telefonica.
Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar með Jose Maria Alvarez Pallete, forstjóra Telefonica. Vísir/EPA
Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar brutu hundrað marka múrinn saman í fyrri hálfleik á móti Getafe í spænsku deildinni í kvöld.

Luis Suarez, Lionel Messi og Neymar skoruðu þrjú fyrstu mörk Börsunga í leiknum sem þýðir að þeir hafa skorað meira en hundrað mörk saman á leiktíðinni.

Suarez bætti við sínu öðru marki seinna í hálfleiknum og þar með féll félagsmet Lionel Messi, Samuel Eto'o og Thierry Henry sem höfðu skorað 100 mörk saman tímabilið 2008-09.

Spænska metið er hugsanlega í hættu en þeir Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og Gonzalo Higuaín skoruðu 118 mörk saman tímabilið 2011-12.

Lionel Messi skoraði sitt annað mark í leiknum í upphafi seinni hálfleiksins og þar með 102. mark þrenningarinnar. Þeir eiga því enn eftir 16 mörk í metið.



Flest mörk hjá þremur mönnum í sama félagi á einu tímabili í spænsku deildinni:

118 mörk

Cristiano, Benzema og Higuaín fyrir Real Madrid 2011-2012

102 mörk [Eftir 50 mínútna leik í kvöld]

Messi, Neymar og Suárez fyrir Barcelona 2014-2015

100 mörk

Messi, Eto'o og Henry fyrir Barcelona 2008-2009




Fleiri fréttir

Sjá meira


×