Erlent

Dauðadómum fjölgar en aftökum fækkar

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Kína beitir fleiri aftökum en allur heimurinn samanlagt.
Kína beitir fleiri aftökum en allur heimurinn samanlagt. Vísir/afp
Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International fyrir árið 2014 kemur í ljós ógnvænleg aukning á dauðadómum. Ríkisstjórnir ákváðu víða að grípa til dauðarefsingar til að berjast gegn glæpum og hryðjuverkum. Að minnsta kosti 2466 dauðadómar féllu á heimsvísu í 55 löndum sem er 28% aukning frá árinu 2013. Mest varð aukningin í Egyptalandi og Nígeríu.

Aftökur voru þó færri árið 2014 en 2013. Ef Kína er undanskilið voru 607 aftökur skráðar á árinu 2014 sem er 22% minna en árið áður. Kína beitir fleiri aftökum en allur heimurinn samanlagt. Amnesty International telur að þúsundir séu dæmdir til dauða og teknir af lífi á hverju ári í Kína. Þar sem tölur um aftökufjölda eru ríkisleyndarmál er þó ómögulegt að segja til um hver raunverulegur fjöldi er.

Samkvæmt opinberum tölum í Íran var aftökum beitt 289 sinnum þar í landi.  Amnesty telur þó að 454 fleiri hafi verið teknir af lífi af yfirvöldum. Sádí-Arabía beitti dauðarefsingu að minnsta kosti 90 sinnum, Írak 61 sinni og Bandaríkjunum 35 sinnum. Þessi lönd eru í efstu sætunum yfir lönd sem beita flestum aftökum í heiminum.

Amnesty telur það óhugnanlega þróun að beita dauðarefsingunni til að berjast gegn mögulegri ógn við öryggi ríkisins. Salil Shetty framkvæmdastóri Amnesty International segir að ríki sem beita dauðarefsingu til að sporna við glæpum lifi í blekkingu. Hann segir engar sannanir benda til þess að dauðarefsing fyrirbyggi glæpi frekar en aðrar tegundir refsinga.

Í árskýrlu Amnesty kemur fram að þó aukning á dauðadómum sé slæm þróun þá beri árið 2014 einnig með sér góðar fréttir. Auk þess sem færri aftökur áttu sér stað á heimsvísu, tóku nokkur ríki jákvæð skref í átt að afnámi dauðarefsingar. Fleiri ríki en nokkru sinni áður, eða 117 lönd, greiddu atkvæði með ályktun Sameinuðu þjóðanna um að binda endi á dauðarefsinguna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×