Erlent

Maður fannst látinn á heimili sínu í Ósló í nótt

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Lögreglan í Ósló rannsakar mannslát
Lögreglan í Ósló rannsakar mannslát VÍSIR/EPA
Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi vegna gruns um morð á manni á sjötugsaldri í Ósló í nótt. Lögreglunni var tilkynnt að maður hefði fundist látinn í íbúð sinni um klukkan fimm í nótt að norskum tíma. VG greinir frá því að málið sé rannsakað sem morð að yfirlögðu ráði.

Grete Lien Metlid yfirmaður ofbeldis- og kynferðisglæpadeildar lögreglunnar í Ósló segir að maðurinn sem er í haldi hafi ekki komið við sögu lögreglunnar áður. Hún segir tengsl vera milli mannanna en segist ekkert geta gefið upp um ástæður morðsins.

„Það er staðfest að maður hefur fundist látinn. Aðstæður á vettvangi voru þannig að lögreglan rannsakar þetta sem glæp,“ sagði Silje Bjørkås hjá rannsóknalögreglunni í Ósló í samtali við VG í morgun. Hinn grunaði var handtekin í Ósló og veitti enga mótspyrnu við handtökuna. Það var meðlimur í fjölskyldu hins látna sem tilkynnti andlátið.

Lögreglan í Ósló getur ekki gefið upp dánarorsök eins og er en niðurstöður úr krufningu eru væntanlegar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×