Erlent

Stokkhólmsmaraþonið: Ekkert verðlaunafé til hlaupara ekki frá Norðurlöndum

Atli Ísleifsson skrifar
Keníumaðurinn Benjamin Bitok sigraði Stokkhólmsmaraþonið á síðasta ári.
Keníumaðurinn Benjamin Bitok sigraði Stokkhólmsmaraþonið á síðasta ári. Vísir/AFP
Skipuleggjendur Stokkhólmsmaraþonsins hafa tekið ákvörðun um að framvegis verði einungis hlaupurum frá Norðurlöndum veitt verðlaunafé í hlaupinu. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd.

Rizak Dirshe, margfaldur Svíþjóðarmestari í langhlaupum, segir í samtali við Expressen að ákvörðun taki lífið úr maraþoninu og norski íþróttapistlahöfundurinn Andreas Selliaas segir hana komast eins nærri rasisma og hugsast getur.

Afrískir hlauparar frá löndum eins og Keníu og Eþíópíu hafa verið áberandi í efstu sætum hlaupsins síðustu ár og segja skipuleggjendur hlaupsins hafa tekið ákvörðunina til að hvetja norræna hlaupara.

Svíinn Anders Szalkai var síðasti Norðurlandabúinn til að sigra Stokkhólmsmaraþonið í karlaflokki árið 2001.

Að sögn geta einungis hlauparar frá Norðlöndunum nú unnið verðlaunaféð ef þeir sigra hlaupið eða þá eru fyrsti Norðurlandabúinn sem klárar hlaupið, þó eigi síðar en tíu mínútum á eftir fyrsta manni frá landi utan Norðurlanda. Verðlaunapotturinn hljóðar upp á jafnvirði alls fjórar milljóna króna.

Dirshe segir ákvörðunina fáránlega. „Norrænir strákar og stelpur sem vilja hlaupa hratt, hvernig eiga þau að fara að því? Það verður að vera einhver samkeppni.“ Hann telur ekki að nokkur erlend hlaupastjarna komi þar sem þeir hafi að engu að keppa, nema þá heiðurinn.

Lorenzo Nesi, fjölmiðlafulltrúi hlaupsins, gagnrýnir ákvörðunina harðlega í samtali við Expressen. „Ef ég væri Keníumaður þá myndi ég ekki fara til Stokkhólms. Það væri algerlega tilgangslaust.“

Stokkhólmsmaraþonið verður haldið í 37. skipti laugardaginn 30. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×