Erlent

Biðst afsökunar á að hafa togað í tagl þjónustustúlku

Atli Ísleifsson skrifar
John Key hefur gegnt embætti forsætisráðherra Nýja-Sjálands frá árinu 2008.
John Key hefur gegnt embætti forsætisráðherra Nýja-Sjálands frá árinu 2008. Vísir/Getty/AFP
John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur beðið afgreiðslukonu á kaffihúsi í  Auckland afsökunar fyrir að hafa ítrekað togað í tagl hennar.

Þjónustustúlkan greinir frá málinu í bloggfærslu þar sem hún segir Key nokkrum sinnum hafa togað í taglið, jafnvel eftir að hún bað hann um að hætta því.

Talsmaður forsætisráðuneytisins segir ráðherrann hafa beðið þjónustustúlkuna afsökunar. Hann hafi greint henni frá því að hann hafi ekki ætlað að láta henni líða illa.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í landinu hafa margir gagnrýnt Key vegna málsins.

Þjónustustúlkan segir í færslu sinni að tártogið hafi byrjað í kosningabaráttunni í nóvember síðastliðinn. Hún segist hafa reynt að forðast Key þegar hann kom inn á kaffihúsið og sagt öryggisvörðum ráðherrans að henni væri ekki vel við að ráðherrann togaði í hár hennar.

Í síðasta mánuði bað hún loks Key persónulega að hætta hártoginu en hann hélt því áfram. Hann baðst síðar afsökunar og gaf henni tvær vínflöskur að gjöf.

Nýsjálendingar hafa margir tjáð sig um málið á Twitter með kassamerkinu #tailgate og #ponytailgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×