Fótbolti

Reksturinn gengur verst hjá Íslendingaliðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson spilar með liði Viking sem er í fyrsta sinn í verulegum fjárhagsvandræðum síðan að leyfiskerfið var tekið upp í Noregi.
Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson spilar með liði Viking sem er í fyrsta sinn í verulegum fjárhagsvandræðum síðan að leyfiskerfið var tekið upp í Noregi. Vísir/Anton
Íslendingaliðin Viking og Start eru verst stöddu félögin í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta þegar kemur að fjármálunum og eru í raun einu félögin í deildinni sem þurfa að grípa strax til aðgerða til að taka til í rekstrinum.

Þetta kemur fram í úttekt norska knattspyrnusambandsins á fjárhagsmálum félaga í þremur efstu deildunum í Noregi en líkt og hér á Íslandi þurfa öll félögin í efstu deildunum að gangast undir leyfiskerfi.

Með Viking spila Íslendingarnir Indriði Sigurðsson, Jón Daði Böðvarsson, Björn Daníel Sverrisson og Steinþór Freyr Þorsteinsson. Hjá Start spila Íslendingarnir Guðmundur Kristjánsson, Ingvar Jónsson og Matthías Vilhjálmsson.

Viking og Start höfðu verið á svokölluðu gulu svæði sem þýðir að reksturinn gengur ekki nógu vel en það hafi ekki verið þörf á sérstökum aðgerðum.

Rekstur seinni hluta ársins 2014 gekk hinsvegar það illa hjá báðum félögum að þau duttu niður á rauða svæðið. Þau þurfa því hvort um sig að setja strax saman framkvæmdaáætlun til að bæta reksturinn eins fljótt og auðið er.

Þetta er í fyrsta sinn sem Viking-liðið er í þessari stöðu síðan að leyfiskerfið var tekið upp árið 2009.

Viking er í 4. sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir níu umferðir, sex stigum á eftir toppliði Rosenborg en Start er átta sætum og sjö stigum neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×