Erlent

Dauði B.B. King rannsakaður sem morð

Samúel Karl Ólason skrifar
B.B. King á tónleikum 2012.
B.B. King á tónleikum 2012. Vísir/AP
Morðrannsókn hefur verið opnuð á andláti blús goðsögninni B.B. King. Þetta var tilkynnt í nótt eftir að dætur King sögðu að aðstoðarmenn hans hafi eitrað fyrir honum. Hann lést í svefni á heimili sínu í Las Vegas þann 14. maí. B.B. King var 89 ára gamall.

Lögfræðingar dánarbús hans segja þessar ásakanir vera ósannar og móðgandi.

Dánardómstjórinn John Fudenberg hefur gefið út að upprunaleg rannsókn hafi ekki leitt í ljós sannanir fyrir því að eitrað hafi verið fyrir B.B. King. Hins vegar tilkynnti hann í nótt að morðrannsókn væri hafin.

Þar að auki sagði hann að mögulega tæki sex til átta vikur að fá niðurstöður úr rannsókninni.

Á vef BBC kemur fram að upprunalega sögðu læknar að B.B. King hefði dáið vegna smárra heilablóðfalla sem tengdust sykursýki hans. Dætur hans segja þó að þau Laverne Toney og Myron Johnson hafi byrlað honum lyf til að framkalla kast. Þær segja að hann hafi ekki fengið að hitta fjölskyldumeðlími sína í viku áður en hann lést.

Toney gefur lítið fyrir þessar ásakanir og sagði AP fréttaveitunni að dætur B.B. King hafi alltaf verið með einhverjar ásakanir. Dætur B.B. King höfðuðu mál gegn Toney í fyrra og sökuðu hana um vanrækslu en málið var fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×